Copy
4. tbl. 20. apríl 2022

Þjóðskjalasafn Íslands 140 ára

Þjóðskjalasafn Íslands fagnaði 140 ára afmæli þann 3. apríl 2022 og var hátíðardagskrá af því tilefni 4. apríl. Stofnun Þjóðskjalasafns miðast við auglýsingu landshöfðingja um starfrækslu landsskjalasafns þann 3. apríl 1882. Í upphafi varðveitti safnið skjöl helstu embætta sem rúmuðust á dómkirkjuloftinu í Reykjavík. Nú er það til húsa í nokkrum byggingum að Laugavegi 162 og varðveitir um 46.000 hillumetra af pappírsskjölum og um þrjú terabæt af rafrænum gögnum. Safnið gegnir mikilvægu hlutverki sem framkvæmdaaðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar og sem opinbert skjalasafn.

Hátíðardagskrá í tilefni afmælisins fór fram í húsakynnum safnsins að Laugavegi 162. Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður, flutti ávarp í tilefni tímamótanna ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Skúla Eggerti Þórðarsyni, ráðuneytisstjóra, sem flutti ávarp fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðherra. Gestum var að lokum boðið upp á léttar veitingar og að skoða sýnishorn af skjölum úr safnkosti Þjóðskjalasafns sem sett hafði verið upp vegna afmælisins.

Frétt og myndir frá afmælishátíðinni má finna hér

Hollvinasamtök Þjóðskjalasafns stofnuð

Hjörleifur Guttormsson afhendir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur gögn um undirbúning stofnunar Hollvinasamtaka Þjóðskjalasafns Íslands.

Hollvinasamtök Þjóðskjalasafns Íslands voru formlega stofnuð á afmælisdegi safnsins, þann 3. apríl 2022 og var starfsemi þeirra kynnt á 140 ára afmælishátíð Þjóðskjalasafns sem fram fór 4. apríl.

Tilgangur Hollvinasamtakanna er að treysta tengsl almennings við safnið og auka skilning á mikilvægi varðveislu heimilda um stjórnskipan, stjórnsýslu, borgaraleg réttindi og sögu íslensku þjóðarinnar.

Helstu verkefni sem hin nýstofnuðu samtök munu beita sér fyrir verða m.a. söfnun einkaskjalasafna, tengsl við almenning og ungt fólk, auk þess sem samtökin verða vettvangur fyrir sjálfboðavinnu í þágu safnsins. Þá stefna samtökin að því að standa að upplýsandi viðburðum og fræðslu um málefni tengd safninu.

Hollvinasamtökin eru öllum opin og geta allir gengið í samtökin.

Formaður Hollvinasamtakanna er Steinunn Valdís Óskarsdóttir en aðrir í stjórn eru; Guðjón Friðriksson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir, Magnús Karel Hannesson og Sigrún Magnúsdóttir.

Upplýsingar um Hollvinasamtökin á vef Þjóðskjalasafns.

Ný stefna Þjóðskjalasafns

Ný stefna fyrir Þjóðskjalasafn Íslands til næstu fimm ára var kynnt á 140 ár afmælishátíð safnsins þann 4. apríl sl. Stefnan, sem nær yfir árin 2022-2027, markar ákveðin tímamót í starfseminni með áherslu á stafræna umbreytingu. Upplýsingatæknisamfélag 21. aldar kallar á nýjar áherslur og nýjar lausnir í langtímavörslu skjala- og gagnasafna og miðlun upplýsinga til notenda. Þjóðskjalasafn Íslands sinnir bæði fortíð og framtíð - varðveitir heimildir um sögu og samtíma Íslands og sér um framkvæmd opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar. Starf safnsins hvílir því á tveimur meginstólpum. Minni Íslands úr fortíðinni er varðveitt í skjölum fyrri tíma og tryggir langtímaminni þjóðarinnar. Gögn og upplýsingar samtímans eru varðveittar til að tryggja hag stjórnsýslunnar og réttindi borgaranna. Hvort tveggja er mikilvægt fyrir framtíðina og verður ekki aðskilið.

Nánari upplýsingar um nýja stefnu Þjóðskjalasafns Íslands má finna hér.

Úr Orðabelg

Í Orðabelg – sögulegu hugtakasafni Þjóðskjalasafns Íslands er hægt að fræðast um einstök orð eða hugtök sem koma fyrir í sögulegum textum.

Reppagogus: hreppstjóri. [Hin forna lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás II. bindi. Kaupmannhöfn 1829, bls. 36-37 (undir hreppstjórnarmaðr)]. Prestur titlar bónda á Núpsstað „ex reppagogus“ árið 1816, en ári seinna er hann Mr., þ.e. monsjör. ÞÍ. Kirknasafn. Kálfafell í Fljótshverfi BC/2, bls. 116, 117.


https://ordabelgur.skjalasafn.is/
Vertu vinur okkar á Facebook Vertu vinur okkar á Facebook
Vefur Þjóðskjalasafns Vefur Þjóðskjalasafns
Þjóðskjalasafn Íslands © 2022 Þjóðskjalasafn Íslands, Allur réttur áskilinn.

Uppfæra upplýsingar um áskrift     Hætta í áskrift.


This email was sent to <<Netfang>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Þjóðskjalasafn Íslands · Laugavegur 162 · Reykjavik · Reykjavikurborg 105 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp