Copy
3. tbl. 10. mars 2022

Heimild mánaðarins

Frásögn Jóns Ólafssonar úr Grunnavík um Hóladómkirkju

Í heimild marsmánaðar fjallar Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir um skjal ritað af Jóni Ólafssyni (1705–1779) úr Grunnavík. Jón vann mestan hluta ævinnar við fræðistörf í Árnasafni í Kaupmannahöfn og varð fyrsti styrkþegi Árnasjóðs. Langflest skjöl rituð af honum eru því eðlilega varðveitt í safni Árna Magnússonar. Í Þjóðskjalasafni leynist þó að minnsta kosti eitt skjal ritað af honum. Í skjalinu er ágrip af sögu kirkna á Hólum, en Jón þekkti vel til staðahátta enda brautskráðist hann frá Hólum 1722.

Hér má lesa heimild mánaðarins: https://skjalasafn.is/heimild/2022-03
 

Manntalið 1952 afhent Þjóðskjalasafni

Samstarfsverkefni Þjóðskjalasafns og Þjóðskrár 

Þjóðskjalasafn Íslands og Þjóðskrá Íslands undirrituðu þann 1. mars sl. samstarfssamning um afhendingu og skönnun á manntalinu 1952. Markmið samningsins er tvíþætt, annars vegar að tryggja varðveislu frumrita manntalsins í Þjóðskjalasafni og gera myndir af því aðgengilegar á vefnum. Hins vegar er markmiðið að safna upplýsingum og skrá verkferla við skráningu, skönnun og miðlun manntalsins. Þær upplýsingar munu nýtast Þjóðskjalasafni við áætlanagerð og vinnslu sambærilegra verkefna en aukin áhersla er á miðlun heimilda yfir vefinn á vegum safnsins.

Manntalið 1952 var tekið í þeim sérstaka tilgangi að búa til spjaldskrá yfir alla landsmenn og var það í raun grunnur að því sem síðar kallaðist þjóðskrá. Stefnt er að því að verkefninu verði lokið í maí á þessu ári og manntalið verði þá birt á vef Þjóðskjalasafns Íslands.

Nánari upplýsingar má finna hér

Auglýst eftir starfsfólki við frágang skjalasafna

Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir laus til umsóknar tvö tímabundin störf til allt að tveggja ára við frágang og skráningu skjalasafna. Umsóknarfrestur er til og með 18. mars næstkomandi. Nánari upplýsingar og umsóknarform má finna hér.
 

Úr Orðabelg

Í Orðabelg – sögulegu hugtakasafni Þjóðskjalasafns Íslands er hægt að fræðast um einstök orð eða hugtök sem koma fyrir í sögulegum textum.

Hálfgift/hálfgiftur: Trúlofaður? Orðið haft um húsbændur á Randversstöðum í Breiðdal árið 1790, ÞÍ. Kirknasafn. Eydalir BC/2, bls. 197. Næsta ár voru þau gift. - Einnig gæti þetta merkt, að lýsingar til hjónabands væru komnar af stað eða þeim lokið, en hjónavígsla hefði enn ekki farið fram. Lýsa þurfti með hjónaefnum þrjá sunnudaga í röð. Drægist gifting í þrjá mánuði frá síðustu lýsingu, voru lýsingarnar ógildar og þurft að lýsa með hjónaefnunum aftur. Gat þeim þá snúist hugur og hlotið af viðurnefni, svo sem Halldór „hálfgifti“. Kristleifur Þorsteinsson, Úr byggðum Borgarfjarðar II. Reykjavík 1948, bls. 372-373.

https://ordabelgur.skjalasafn.is/
Vertu vinur okkar á Facebook Vertu vinur okkar á Facebook
Vefur Þjóðskjalasafns Vefur Þjóðskjalasafns
Þjóðskjalasafn Íslands © 2020 Þjóðskjalasafn Íslands, Allur réttur áskilinn.

Uppfæra upplýsingar um áskrift     Hætta í áskrift.


This email was sent to <<Netfang>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Þjóðskjalasafn Íslands · Laugavegur 162 · Reykjavik · Reykjavikurborg 105 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp