Sjötta og síðasta bindi heildarútgáfu á skjölum Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 kom út í síðasta mánuði. Skjöl Landsnefndarinnar gefa einstaka innsýn inn í íslenskt samfélag á seinni hluta 18. aldar. Landsnefndin fyrri var þriggja manna nefnd á vegum konungs sem ferðaðist um Ísland í eitt og hálft ár og safnaði upplýsingum um aðstæður í samfélaginu. Í skjalasafni nefndarinnar eru bréf frá almenningi, prestum, sýslumönnum og öðrum embættismönnum auk greinargerða og margvíslegra gagna frá nefndarmönnum sjálfum. Með þessari útgáfu eru skjölin orðin mun aðgengilegri til rannsókna á sögu átjándu aldarinnar.
Frumbréf úr skjalasafni Landsnefndarinnar eru bæði á íslensku og dönsku eins og þau voru þegar þau voru send Landsnefndinni á sínum tíma. Flest íslensku bréfin voru þýdd á sínum tíma til notkunar fyrir nefndina af ritara hennar Eyjólfi Jónssyni. Íslensku bréfin sem bárust henni skömmu fyrir brottför af landinu voru þó aldrei þýdd, og er bætt úr því í tengslum við útgáfuna. Bókunum fylgja fræðilegar greinar, ítarlegar skýringar, nafna- og efnisorðaskrár. Allar greinar og skýringarefni er bæði á íslensku og dönsku.
Verkefnið var styrkt af Rannís og Augustinusarsjóðnum danska og var unnið í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands, Ríkisskjalasafns Danmerkur og Sögufélags. Ritstjórar útgáfunnar eru Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir.
Á vef Landsnefndarinnar fyrri má nálgast frekari upplýsingar um nefndina, skjalasafn hennar og útgáfuverkefnið: https://landsnefndin.is/
|