Copy
9. tbl. 18. október 2022

Skil á skjölum þýska ræðismannsins á Íslandi 1927–1940 til Þýskalands

Þjóðskjalasafn Íslands skilaði skjölum þýska ræðismannsins á Íslandi til Þýskalands í sérstakri athöfn sem fram fór í Safnahúsinu við Hverfisgötu þann 3. október síðastliðinn. Skjölin voru upphaflega gerð upptæk þann 10. maí 1940 þegar Ísland var hernumið af Bretum og þegar breskt hernámslið yfirtók bústað þýska ræðismannsins að Túngötu 18 í Reykjavík. Skjölin eru frá tímabilinu 1927-1940 og eru varðveitt í fimm skjalaöskjum. Þau voru afhent Þjóðskjalasafni úr utanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu á árunum 1989-1990 en höfðu komist í vörslu ráðuneytanna eftir síðari heimsstyrjöld. Ótvírætt er að um þýsk skjöl er að ræða og því með réttu eign Þjóðverja. Ef styrjöldin hefði ekki brostið á hefðu þau verið flutt til Þýskalands og varðveitt þar. Það var Prof. Dr. Michael Hollmann, forseti Sambandsskjalasafns Þýskalands, sem tók við skjölunum fyrir hönd Þýskalands. Nánari upplýsingar um skil á þýsku skjölunum má finna hér.
 

Heimild októbermánaðar

Tilraun til málvöndunar á 18. öld

Í heimild októbermánaðar fjallar Ragnhildur Hólmgeirsdóttir um konunglega tilskipun um fiskveiðar og verslun á Íslandi sem var birt 1776. Útstrikanir í skjalinu eru óvenju margar og þar er meðal annars strikað yfir orð sem voru íslenskum embættismönnum bæði töm og auðskiljanleg. Þær benda til þess að höfundinum hafi við nánari umhugsun þótt líklegt að orðin gætu vafist fyrir þeim almenningi sem átti að hlusta á þau á hverju ári á manntalsþingum. Það gerir skjalið óvenjulegt. 

Hér má lesa heimild mánaðarins: https://skjalasafn.is/heimild/2022-10

Útgáfa lokabindis heildarútgáfu á skjölum Landsnefndarinnar fyrri

Sjötta og síðasta bindi heildarútgáfu á skjölum Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 kom út í síðasta mánuði. Skjöl Landsnefndarinnar gefa einstaka innsýn inn í íslenskt samfélag á seinni hluta 18. aldar. Landsnefndin fyrri var þriggja manna nefnd á vegum konungs sem ferðaðist um Ísland í eitt og hálft ár og safnaði upplýsingum um aðstæður í samfélaginu. Í skjalasafni nefndarinnar eru bréf frá almenningi, prestum, sýslumönnum og öðrum embættismönnum auk greinargerða og margvíslegra gagna frá nefndarmönnum sjálfum. Með þessari útgáfu eru skjölin orðin mun aðgengilegri til rannsókna á sögu átjándu aldarinnar.

Frumbréf úr skjalasafni Landsnefndarinnar eru bæði á íslensku og dönsku eins og þau voru þegar þau voru send Landsnefndinni á sínum tíma. Flest íslensku bréfin voru þýdd á sínum tíma til notkunar fyrir nefndina af ritara hennar Eyjólfi Jónssyni. Íslensku bréfin sem bárust henni skömmu fyrir brottför af landinu voru þó aldrei þýdd, og er bætt úr því í tengslum við útgáfuna. Bókunum fylgja fræðilegar greinar, ítarlegar skýringar, nafna- og efnisorðaskrár. Allar greinar og skýringarefni er bæði á íslensku og dönsku.

Verkefnið var styrkt af Rannís og Augustinusarsjóðnum danska og var unnið í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands, Ríkisskjalasafns Danmerkur og Sögufélags. Ritstjórar útgáfunnar eru Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir.

Á vef Landsnefndarinnar fyrri má nálgast frekari upplýsingar um nefndina, skjalasafn hennar og útgáfuverkefnið: https://landsnefndin.is/

Úr Orðabelg


Í Orðabelg – sögulegu hugtakasafni Þjóðskjalasafns Íslands er hægt að fræðast um einstök orð eða hugtök sem koma fyrir í sögulegum textum.

Handsal: Þegar menn voru óskrifandi eða gátu ekki af einhverri ástæðu ekki skrifað nafn sitt, handsöluðu þeir öðrum manni viðstöddum réttinn til þess að skrifa nafn sitt. Var þá fyrir aftan eða neðan nafnið skrifað „handsalað“, „handsalaði“ eða „handsalar“ og skyldi sú undirritun jafngild sem eiginhandar áritun.


https://ordabelgur.skjalasafn.is/
Vertu vinur okkar á Facebook Vertu vinur okkar á Facebook
Vefur Þjóðskjalasafns Vefur Þjóðskjalasafns
Þjóðskjalasafn Íslands © 2022 Þjóðskjalasafn Íslands, Allur réttur áskilinn.

Uppfæra upplýsingar um áskrift     Hætta í áskrift.


This email was sent to <<Netfang>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Þjóðskjalasafn Íslands · Laugavegur 162 · Reykjavik · Reykjavikurborg 105 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp