Menntabúðir, ráðstefnur,
spjaldtölvur, Facebook
og fleira til

Fréttabréf 3f - september 2012

Vel sóttar menntabúðir

Fyrstu menntabúðir (e. educamp) 3F fóru fram föstudaginn 28. september sl. og er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Yfir 100 kennarar af öllum skólastigum mættu í Lágafellsskóla að kynna sér margvíslega möguleika upplýsingatækninnar í sérkennslu. Myndir af viðburðinum má finna á Facebook síðu 3F. Þegar er hafin hugmyndavinna við næsta hitting og ljóst að fyrirbærið menntabúðir er komið til að vera.

--+--

Nýsköpunarstyrkir í skólastarfi

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði ráðsins. Við úthlutun verður einkum horft til verkefna sem leggja áherslu á lýðræði og mannréttindi svo og upplýsinga- og tæknimennt í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.Í því skyni að koma sem best til móts við óskir félagsmanna óskum við eftir tillögum um námskeið fyrir 15. nóvember nk. 
Umsóknir skulu hafa borist skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12, í síðasta lagi 10. október 2012 á þar til gerðum eyðublöðum.

--+--

Spjaldtölvur í Norðlingaskóla

Gefin hefur verið út áfangaskýrsla um þróunarverkefni í Norðlingaskóla sem ætlað er að meta hvaða áhrif notkun iPad spjaldtölva hefur á nám og kennslu í 9. - 10. bekk grunnskóla og skólaþróun í Norðlingaskóla. Matið leiddi í ljós að innleiðing tókst að flestu leyti mjög vel, þrátt fyrir nokkurn ágreining skólans við yfirstjórn skólamála Reykjavíkurborgar í aðdraganda og tæknilega byrjunarörðugleika


Sækja má skýrsluna í heild sinni á vef Rannum

--+--

Ráðstefnur og erindi

Það er óvenju mikið um að vera í menntamálum þessa dagana. Þann 4. október nk. halda Etienne Wenger og Beverly Trayner opinberan fyrirlestur í Hátíðasal HÍ. Erindið nefnist Social learning spaces in landscapes of practice og stendur frá 11:05 - 12:05. Þennan sama dag verður einnig haldin ráðstefna um notkun upplýsingatækni í fullorðinsfræðslu þar sem miðlað verður góðum hugmyndum og sögum af vel heppnuðum dæmum um notkun upplýsingatækni til að styðja við nám fullorðinna. Ráðstefna og verðlaunahátíð eTwinning verður einnig haldin 4. október.
Menntakvika 2012 verður haldin 5. október. Menntakvika er árleg ráðstefna Menntavísindasviðs HÍ og er haldin í húsnæði Menntavísindasviðs v/Stakkahlíð. Megintilgangur ráðstefnunnar er að skapa mennta- og uppeldisstéttum vettvang til að kynnast nýbreytni í rannsókna- og þróunarstarfi.

--+--

Greinar og skrif

Ragnar Þór Pétursson birtir á vef sínum glærur og punkta frá stuttri tölu hans yfir Samfylkingarfólki á hugmyndaþingi um menntamál. Ragnar er skorinorður að vanda og segir m.a. sveitarfélög "þurfa ða loka excel-hugsandi sérfræðinga inni og leyfa 'skólakerfinu' að lækna sig sjálft." Kristín Dýrfjörð hefur einnig birt á vefnum erindið sitt af hugmyndaþinginu en hún fjallaði um leikskólann.
Á vef Epli.is má finna fróðlega grein  um leiðbeinandi aðgang í iOS 6, nýja stýrikerfinu frá Apple. Þar er einnig fjallað um betri árangur í algebru með iPad. Sigurður Fjalar skrifar um öryggismál í tveimur greinum sem nefnast Ekki vera vitur eftir á og Tveggja þrepa auðkenning
Hjálmar Árnason hefur látið vel í sér heyra undanfarið og  í frétt á mbl.is er sagt frá gagnrýni hans á skólakerfið á nýafstöðnum ársfundi Vinnumálastofnunar. Í stuttri frétt á visir.is fjallar Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í málfræði, um tungumál og tækni. Þar kemur m.a. fram að tilviljun ein hafi ráðið því að íslenskur talgervill hafi ratað í Android síma. Loks má benda á grein í mbl.is þar sem fram kemur að tæplega 5% unglinga eru haldnir tölvufíkn.

--+--


Áhugaverðir hópar á Facebook

Facebook skipar sífellt veigameiri sess í faglegu starfi kennara og nú er svo komið að finna má fjölmörg áhugaverð samfélög þar sem skólafólk skiptist á skoðunum um nám og kennslu. Spjaldtölvur í námi og kennslu er mjög virkur hópur sem telur yfir 740 meðlimi. Þegar þetta er skrifað er 91 skráður í Moodle hópinn þar sem meðlimir fræða hvern annan um Moodle námsstjórnarkerfið og notkun þess. Upplýsingatækni í skólastarfi telur rúmlega 100 meðlimi sem ræða sín á milli um allt sem snýr að UT í skólastarfi. FSF - hagnýt upplýsingatækni er hópur sem horfir á hagnýtingu upplýsingatækninnar í sérkennslu. Hann telur 70 meðlimi á þessu augnabliki. Ekki má svo gleyma Technology in the English Classroom hópnum.
Sjálfsagt er að benda á  umræðu um nám fullorðinna í samnefndum hóp og samfélag náttúrufræðikennara á Facebook þrátt fyrir að þeir hópar einblíni ekki á upplýsingatæknina.

--+--

Spuni 2012

Á haustmisseri 2012 verður hið vinsæla Spuna-námskeið endurtekið á Tungumálatorginu. Athyglinni verður beint að verkfærum á neti sem tengjast samskiptum, skapandi verkefnavinnu, hljóð- og myndvinnslu, miðlun efnis, höfundarétti o.fl. Áhugasamir kennarar eru hvattir til að skrá sig sem fyrst og tryggja sér pláss á námskeiðinu. Námskeiðið fer fram með fjarnámssniði á tímabilinu 8. október – 2. desember 2012. Lögð er áhersla á að álag á þátttakendur verði ekki mikið og er verkefnavinnu stillt í hóf.

Skráning og frekari upplýsingar

--+--

3f á Facebook og Twitter

Við hvetjum alla félagsmenn til þess að líka við félagið á Facebook, enda er það kjörinn vettvangur til að miðla upplýsingum og skapa samræðu um málefni sem brenna á okkur.

3f á Facebook
3f á Twitter