Einhver vandamál við lesturinn? Smelltu hér til að opna í vafra (browser). 

KVIKMYNDASKÓLINN STENDUR Í BARÁTTU

Áætlað er að kennsla í skólanum hefjist samkvæmt stundaskrá 22. ágúst næstkomandi og vonast er til að lausn verði komin á málinu fyrir þann tíma. 

Hvað er kvikmyndaskóli Íslands ?
- hér má sjá brot úr verkum nemenda á vorönn
- hér má sjá tímalínu skólans - hver hefur þróunin verið ?

Ert þú búin/n að kvitta á undirskriftaplaggið
- Áskorun til stjórnvalda ? 
ef ekki -------- smelltu hér ---------   

Hér að neðan má finna tengla á nokkrar af ýmsum fréttum síðustu daga:

Stjórn skólans ósátt við Katrínu Jakobsdóttur - DV.is
Þrettán milljónir ber á milli - Vísir.is
Gagnrýnir tregðu ríkisins til að styrkja skólann - Vísir.is
Nemendur skólans láta í sér heyra - Pressan.is
Hægt er að hlaða niður pdf skjali með yfirlýsingu nemenda --HÉR--
Setur skilyrði fyrir stuðningi - Mbl.is
Nemar við skólann ánægðir með viðbrögð Jóhönnu - Vísir.is
Þráinn styður ekki fjárlög að óbreyttu - Vísir.is
Meira fé þarf til óbreyttrar starfsemi - Vísir.is

Fréttatilkynning frá stjórn Kvikmyndaskóla Íslands í byrjun ágúst :

Í tilefni af frétt í gær, á frídegi verslunarmanna, sendir stjórn Kvikmyndaskóla Íslands (KVÍ) frá sér svohljóðandi yfirlýsingu.
Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands staðfestir að ekki hefur tekist að endurnýja samning skólans við mennta- og menningarmálaráðuneytið en samningur skólans við ráðuneytið og stafsleyfi hans rann út 31. júlí. Hafa samningaviðræður við ráðuneytið um endurnýjaðan samning og starfsleyfi staðið yfir í tæpt ár. Lokatilraunir standa nú yfir til að ná samningum þegar framundan er tuttugasta starfsár skólans. hafa
Deilur hafa staðið við embættismenn um hvernig skóli KVÍ eigi að vera og um fjárveitingar til skólans.
Þrír ráðherrar mennta- og menningarmálaráðuneytis hafa fengið málið í hendur en ekki gengið frá því. Sá fjórði, Ögmundur Jónasson, er nú með málið sem starfandi menntamálaráðherra.
Stjórn skólans er mjög ósátt við að Katrín Jakobsdóttir skyldi ekki ganga frá samningum við skólann áður en hún fór í barneignaleyfi, eins og hún og ríkisstjórnin gerðu gagnvart Keili í byrjun maí. Forsvarsmenn skólans höfðu þá í marga mánuði unnið samkvæmt hennar forskrift að formlegu samstarfi við Háskóla Íslands á háskólastigi og hafði náð mikilvægum áfanga í þeirri vinnu.

Stjórn skólans hefur í allt sumar reynt til þrautar að ná samningum við ráðuneytið án árangurs. Afleiðingin er að kennarar og starfsfólk hefur ekki fengið launin sín fyrir vinnu við síðustu önn greidd í allt að fjóra mánuði. Samningsleysið við ráðuneytið hefur gert það að verkum að skólinn fær ekki
bankafyrirgreiðslu og getur því ekki greitt laun.

Hér er um rúmlega 50 manna hóp að ræða. KVÍ hefur verið mikilvægur vinnustaður kvikmynda-gerðarmanna og listamanna úr öllum greinum. Skólinn hefur greitt um 390 milljónir í laun til listamanna frá 2007 til þessa dags og hefur getið sér gott orðspor sem áreiðanlegur vinnuveitandi. Enda
hefur stór kjarni starfsmanna haldið áfram vinnu launalaust til að bjarga skólanum. Nú er hins vegar komið að þolmörkum. Þetta eru erfið mánaðamót fyrir marga og launagreiðslur verða að berast næstu daga annars blasa örþrifaráð við í neyð hjá mörgum fjölskyldum. Bæði stjórnmála- og embættismönnum hefur þessi staðreynd verið ljós um margra vikna skeið. Þá eru 150 nemendur að bíða staðfestingar ráðuneytis á að skólinn starfi sitt tuttugasta starfsár. Margir þeirra hafa lagt á sig fjárhagslegar skuldbindingar sem heimta að þeir fái að ljúka námi við skólann og komist til starfa.

Forsætisráðuneytinu var sent neyðarkall 19. maí þar gert var grein fyrir stöðunni. Fjallað var lítilega um málið í ríkisstjórn þaðan sem það var sent aftur til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að beiðni
Katrínar Jakobsdóttur sem síðan fylgdi málinu ekki eftir. Málefni KVÍ hafa síðan legið óhreyfð í ráðuneytinu. Þráinn Bertelsson alþingis- og kvikmyndagerðarmaður og Skúli Helgason alþingismaður og formaður menntamálanefndar hafa meðal annarra þrýst á frágang málsins.

KVÍ sem verður 20 ára á næsta ári, er einn framsæknasti listaskóli landsins og fékk nú í apríl inngöngu í hin virtu alþjóðasamtök kvikmyndaskóla CILECT. Það var hinn heimsfrægi kvikmyndaframleiðandi
og skólastjóri The National Film and Television School í London, Nik Powell, sem sá um úttektina á KVÍ og veitti skólanum fyrsta flokks umsögn. Nemendur skólans eru orðnir mjög áberandi í íslenskum kvikmyndaiðnaði og stuðla þar að þenslu og vexti í myndmiðlaiðnaðinum, sem er atvinnugrein með mikla vaxtamöguleika.

Stjórn skólans vill benda á eftirfarandi staðreynd. Af 42 nemendum sem stóðust inntökupróf til að hefja nám við skólann í haust, þá voru 36 á atvinnuleysisskrá. Af 33 nemendum sem útskrifuðust í vor það fengu 20 strax vinnu við mynd Ridley Scott. Myndmiðlaiðnaðurinn velti nú ágúst rúmlega 2 milljörðum; með sölunni á Latabæ til Turner, framleiðslunni hjá Ridley Scott, og innlendri framleiðslu. Framundan eru stór verkefni þar sem KVí er mikilvægur hlekkur í að mennta fólk til starfa sem eini kvikmyndaskóli landsins.

Stjórn KVÍ telur óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki meta starf og hlutverk Kvikmyndaskóla Íslands í endurreisn íslensks atvinnulífs og skorar á ríkisstjórn og ráðuneyti að ganga frá samningum nú þegar, svo hægt sé að hefja störf við skólann .

Stjórn og rektor KVÍ


IDFA FJÁRMÖGNUNARMESSA - FRESTUR TIL 1.SEPT OG MARKAÐUR MEÐ FREST TIL 15.SEPTEMBER

Heimildamyndahátíðin IDFA fer fram í 24. sinn í Amsterdam dagana
16. – 27. nóvember. Í tengslum við hátíðina verður haldin fjármögnunarmessa og markaður fyrir heimildamyndir.
Frestur til að sækja um þátttöku er 1. september fyrir fjármögnunarmessuna og 15. september fyrir markaðinn.

Frekari upplýsingar um fjármögnunarmessuna má nálgast hérna.
Frekari upplýsingar um markaðinn má nálgast hérna.
 

BERLINALE TALENT CAMPUS - OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR

Berlinale Talent Campus fer fram í 10. sinn dagana 11. – 16. febrúar 2012, samhliða kvikmyndahátíðinni í Berlín. Vinnustofan er ætluð kvikmyndagerðarmönnum sem eru stíga sín fyrstu skref í kvikmyndageiranum og hafa áhuga á að læra af virtum sérfræðingum og efla alþjóðlegt tengslanet sitt. Umsóknarfrestur um þátttöku rennur út 5. október 2011.

Þema vinnustofunnar verður „breytileg sjónarhorn“ (e. changing perspectives). Gjaldgengir eru kvikmyndagerðarmenn* sem eru að hefja vegferð sína í geiranum og nemendur sem eru langt komnir í námi í kvikmyndafræði.

Hægt er að sækja um þátttöku á Berlinale Talent Campus 2012 hér.

*Vinnustofan er ætluð eftirfarandi fagaðilum innan kvikmyndageirans: Leikurum, kvikmyndatökumönnum, leikstjórum, dreifingaraðilum, klippurum, gagnrýnendum, framleiðendum, leikmyndahönnuðum, handritshöfundum, hljóðhönnuðum og tónskáldum..

ICELANDIC CINEMA ONLINE VEFURINN !
Framleiðendur og aðrir rétthafar íslensks kvikmyndaefnis eru hvattir til að hafa samband hafi þeir áhuga að koma kvikmyndaefni sínu á framfæri á vefnum. 

Vefurinn býður upp á aðgengi að íslensku kvikmyndaefni hér á landi sem og erlendis. Stefnan er að bjóða upp á fjölbreytt úrval af  kvikmyndum,  heimildarmyndum, stuttmyndum, sjónvarpsþáttum og  öðru kvikmyndatengdu efni frá Íslandi.  
Icelandic Cinema Online
Gríðaleg aukning er í eftirspurn eftir kvikmyndaefni á netinu og mikilvægt að íslenskir framleiðendur  og kvikmyndagerðarfólki nýti sér þau tækifæri sem netið hefur upp á að bjóða.

Til að koma efni þínu á framfæri, vinsamlegast hafðu samband við Sunnu í síma 6930995 eða með því að senda henni mail á sunna@icelandiccinema.com.
Icelandic Cinema Online á Facebook 
Icelandic Cinema Onine á vefnum

SKELLTU ÞÉR Í BÍÓ PARADÍS !
Dagskrá Ágúst mánaðar má finna með því að smella hér.


Bíó Paradís sýnir á fimmta tug íslenskra kvikmynda frá tuttugu ára tímabili í allt sumar. Myndirnar eru sýndar með enskum texta.

Í Bíó Paradís er einnig að finna veitingahús og verslun með mynddiska og annan kvikmyndatengdan varning.

Bíó Paradís er því nokkurskonar hjarta kvikmyndamenningar í landinu; áfangastaður allra þeirra sem vilja eiga góðar stundir í afslöppuðu umhverfi sem angar af andrúmslofti kvikmyndanna. 
Bíó Paradís á facebook.
Bíó Paradís á vefnum

Dagskrárlok! Stjórn RÚV ehf.


Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlamaður skrifar:

"Alltaf þegar minnst er opinberlega á „málefni Ríkisútvarpsins ohf' langar mig að skera mig á púls með bitlausum eldhúshníf. Þetta er yfirnáttúrulega þreytandi umræðuefni. Það hefur aldrei verið neitt að þessari stofnun finnst mér, stútfull af hæfileikafólki, alveg stórskemmtilegur vinnustaður.

En stjórnunin á þessu fyrirtæki hefur alltaf verið og er hrein hörmung. Orðið metnaður er bara ekki til í orðabók hússins. Þetta er einsog héraðsmót í frjálsum íþróttum þar sem hástökksráin er skrúfuð föst í einum metra og keppendur verðlaunaðir fyrir að klára fjögur hundruð metra hlaupið innan vinnudagsins.

Gull í niðurskurði

Það var talað um breytta tíma þegar Ríkisútvarpinu var snúið í ohf. Loksins komin stjórn sem myndi hætta borða vínarbrauð á útvarpsráðsfundum á föstudögum og álykta útí bláinn um dagskrána. Nú væri komin stjórn sem raunverulega réði einhverju um rekstur Ríkisútvarpsins ohf, réði útvarpsstjóra og mótaði einhverja stefnu. En því miður. Það er löngu ljóst að það er ekkert að gerast í stjórn Ríkisútvarpsins ohf, frekar en í gömlu ríkisútvarpsráðunum.

Ríkisútvarpið ohf stendur fyrir allskonar dagskrá takk, fréttir og dægurefni, dauðaskammtur af Júróvisíón, en stefnan er í engin. Sumardagskrá sjónvarpsins byrjar um miðjan júlí, er fyrirtækið kannski á öðru tímabelti en Ísland? Það næsta sem ég hef komist því að heyra um stefnu Ríkisútvarpsins ohf var þegar útvarpsstjóri sagði á starfsmannafundi sem efnt var til vegna niðurskurðar fyrir nokkrum árum: ,,Við erum að gera mjög góða hluti í áhorfskönnunum...'' En það er bara einn mælikvarði á árangur. Hvað með gæðin?

Niðurskurður er reyndar alveg sérgrein Ríkisútvarpsins ohf. Ef þetta væri keppnisgrein á smáþjóðaleikunum værum við með gull á öllum mótum. Að gera sem minnst, það er takmarkið. Í fyrstu skáldsögu Péturs Gunnarssonar var talað um pilsnerinn sem seldur var á Melavellinum, ,,Þetta piss sem ríkið passar að verði aldrei áfengt.'' Það smellpassar alveg.

Stofnun bundin við bryggju

Það er margt líkt með Vegagerðinni og Ríkisútvarpinu ohf. Vegagerðin er þjónustufyrirtæki, leggur vegi, heldur þeim við, byggir brýr og býður út verk á almennum markaði. Þetta er ekki flókið. Ríkisútvarpið ohf er rekið einsog einkahlutafélag að því er virðist þótt þjóðin eigi eina hlutabréfið. Fyrirtækið fer sínar eigin leiðir þrátt fyrir þúsund þjónustusamninga og lágmarksskyldur í lögum. Það fær rúmar þrjú þúsund milljónir innum bréfalúguna árlega og skilgreinir það sem vandamál. Það er létt hungraður úlfur á auglýsingamarkaðnum, lesnar og leiknar auglýsingar og kostanir, leikir og gefins geisladiskar. Það vantar bara að fyrirtækið fái kirkjugarðsgjöldin líka. Þetta er auðvitað klár della.

Stjórn Ríkisútvarpins á að fara með stjórn fyrirtækisins, samkvæmt lögum. Þetta er þokkalega skýrt, í 9.grein takk fyrir: ,,Að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins...''. Það er ekki átt við kaup á kaffi eða hvaða lag á að spila fyrir fréttir 12.20, heldur rekstrarlegar ákvarðanir; marka stefnu, meginlínur, og fela svo starfsmönnum félagsins að fylgja því eftir sem búið er að ákveða. Punktur.

Það er alveg ótrúlegt hvað núverandi stjórn Ríkisútvarpsins ohf sættir sig við lítið. Opnunartónleikum Hörpunnar var ekki sjónvarpað af því tónlistarstjóri hússins ,,vildi ekki senda þetta út í sjónvarpinu.’’ Þetta er sennilega stærsti menningarviðburður á Íslandi síðan Laxness fékk Nóbelinn. Eða hvar finna stjórnendur Ríkisútvarpsins allar þessar afsakanir? Við minnstu gagnrýni er allt öðrum að kenna; samkeppnisaðilum, ríkisstjórninni, veðurstofunni…

Mér kemur í hug togarinn Omnya sem lá bundinn við bryggju í Akureyrarhöfn árum saman vegna skulda og búið að fylla brúna af pottaplöntum. Heimilislegt, en var skipið ekki betur komið útá sjó við veiðar? Og skuldavandi Ríkisútvarpsins ohf virðist vera endalaust Daglegt mál sem ekki er hægt að afgreiða með öllum tekjunum.

Það er alveg ískyggilegt að lesa uppúr fundargerðinni þegar stofnunin gerir upp árið 2010 á aðalfundi: ,,...Þetta ár einkenndist af baráttu við að láta endurtekningar skerðingar stjórnvalda á tekjum Ruv hafa sem minnst neikvæð áhrif á dagskrárframboðið. Þótt niðurskurðurinn hafi auðvitað bitnað á dagskránni sem boðin er sýndu viðhorfskannanir og niðurstöður hlustunar og áhorfsmælinga að hinir hefðbundnu miðlar félagsins Rás1, Rás2 og Sjónvarpið héldu sínum hlut og gott betur....'' Gott betur en hvað? Textavarpið?


Sjálfsvorkunina í segulbandasafnið

Málið snýst um að það er hægt að verja þeim peningum sem Ríkisútvarpið ohf fær frá íslensku þjóðinni miklu betur. Endurskipuleggja alla dagskrárgerðina innanhúss og bjóða út þáttagerð á almennum markaði. Hugsa stærra, fagna hugmyndum og það sem meira er, framkvæma eitthvað af þeim.

Fyrsta orðið sem ég heyrði þegar ég kom til starfa á Rás1 trúlega sumarið 1982, var niðurskurður. Það sem ég man helst eftir sem fastráðinn starfsmaður og lausamaður til margra ára er þetta eina orð. Og svo setningin: ,,Það væri gaman að gera þetta, en því miður, við erum að skera niður.’’

Er þetta hægt? Nei, þetta er ekki hægt lengur. Þetta sagði ég við menntamálaráðherra á fundi sem ég pantaði í mars. Í framhaldinu talaði ég við alla í stjórn Ríkisútvarpsins ohf og allt er þetta ágætis fólk, ekki vantar það. Ég sendi þeim í kjölfarið hugmynd, drög að innkaupastefnu fyrir sjónvarpið næsta vetur. Tíu fjölbreyttir þættir sem boðnir væru út til framleiðslu og væri hrein viðbót við dagskrána sem fyrir er. Svanhildur Kaaber, formaður stjórnar, svaraði kurteislega, þakkaði áhugann en vísaði að öðru leyti til dagskrárstjórans.

Það orð er nefnilega bara til í eintölu á Ríkisútvarpinu ohf. Það er dagskrárstjórinn sem sótti ekki um starf dagskrárstjóra Sjónvarps. Er samt dagskrárstjórinn, ásamt því að annast dagkrárstjórn á báðum útvarpsrásunum og sjálfsagt langbylgjunni um helgar.

Ég sendi reyndar umræddum dagskrárstjóra í eintölu hugmynd að þætti í september er leið. Hef ekki fengið svar, frekar en svo margir aðrir í þessu fagi árum saman, ekki einu sinni sjálfvirkt svar einsog stundum er gert þegar fólk er lengi í fríi, ,,kem aftur þegar sumardagskráin byrjar um miðjan júlí 2011.''

Niðurníðsla er nákvæmt orð yfir ,,málefni Ríkisútvarpsins ohf.’’ Alvar Aalto sagði um bóksafnsbyggingu sem hann teiknaði í borginni Vyborg í Sovétríkjunum sálugu: ,,The library still exists but it has lost its architecture.'' Erfitt að þýða nákvæmlega en það sama á við Ríkisútvarpið ohf.

Nú þarf að henda hléstefinu, setja sjálfsvorkunina í segulbandasafnið og breyta um afstöðu.

Það er fullt af fólki sem hefur raunverulegan áhuga á þessu félagi, sem getur sest í stjórn og mótað nýja afstöðu í rekstrinum. Slík stefnumörkun tekur eitt langt hádegi. Það væri líka spennandi ef fjármálaráðherrann tæki hlutverk sitt sem fulltrúi eigenda alvarlega, gæti jafnvel gert eitthvað í málinu. Það má vel vera að Alþingi geti lagað lögin um Ríkisútvarpið ohf eitthvað til með haustinu en það nennir enginn þessu pólitíska rugli lengur. Markmið hlýtur að vera að gera Ríkisútvarpið ohf að vegagerð fjölmiðlunar, farvegi fyrir allskonar spennandi og forvitnilegt efni. Kostirnir eru þessir: Annaðhvort stjórnar stjórn Ríkisútvarpsins ohf þessu félagi í umboði eigenda sinna, tekur ábyrgð á stefnu þess, leggur meginlínur og hefur þjónustuhlutverk sitt í huga, eða hættir. Og þá er ég ekki að tala um að hætta með haustinu eða þegar árið er liðið, heldur núna strax.

Og takiði málverkin á fimmtu hæðinni með ykkur."

Hér að neðan er hlekkur á greinina í DV þar sem sjá má allmörg ummæli lesenda: 
http://www.dv.is/blogg/kjallari/2011/7/22/dagskrarlok-stjorn-ruv-ehf/
 

LUMAR ÞÚ Á EFNI Í FRÉTTABRÉF

Endilega sentu þá allar upplýsingar í pósti á filmmakers@filmmakers.is

FK Á FACEBOOK

Félag Kvikmyndargerðarmanna heldur uppi fésbókarsíðu sem inniheldur ýmsar fréttir, endilega skráðu þig og nýttu þér hana til að fylgjast með sem og koma þínum viðburðum á framfæri.

SÆKJA UM AÐILD AÐ FK

Félagar geta orðið þeir sem lokið hafa a.m.k. eins árs námi frá viðurkenndum kvikmyndaskóla, eða hafa sinnt skapandi eða sérhæfðum faglegum störfum við kvikmyndagerð í minnst 12 mánuði. Aðild að félaginu er bundin við einstaklinga.

UMSÓKN Í MENNINGARSJÓÐ

Menningarsjóðurinn úthlutar styrkjum eingöngu til einstaklinga sem eru félagar í FK og eru skuldlausir við félagið. Þarf minnst að hafa borgað tvenn ársgjöld.
Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til a sþ

STJÓRN FK 2011

Hrafnhildur Gunnarsdóttir
         
formaður
Stefanía Thors
         
varaformaður
Guðbergur Davíðsson
         
gjaldkeri
Anna Þóra Steinþórsdóttir
          
ritari
Anton Máni Svansson
         
stjórnarmaður
Arnar Marrow Einarsson
         
stjórnarmaður
Júlía Embla Katrínardóttir
         
stjórnarmaður
Guðmundur Erlingsson
         
varamaður stjórnar
Goði Már Guðbjörnsson
         
varamaður stjórnar

Our mailing address is:
www.filmmakers.is - filmmakers@filmmakers.is - Copyright (C) 2010
Félag Kvikmyndagerðarmanna / The Icelandic Filmmakers Association - Hverfisgata 54 - 101 RVK - Iceland
Email Marketing Powered by Mailchimp