Einhver vandamál við lesturinn? Smelltu hér til að opna í vafra (browser). 

HVAÐ VILL EDDAN 2012 ?
Við viljum boða þig á stefnumót um Edduna 2012 þriðjudaginn 1.nóvember kl. 15:00 í Bíó Paradís.
Til fundarins er boðið aðildarfélögum ÍKSA, fagráði Eddunar og öðrum áhugasömum um Edduverðlaunin. Ef þú telur að einhver ætti að vera þarna, þá skaltu ekki hika við að áframsenda þennan póst.
 
Markmiðið með fundinum er að kíkja aðeins til baka á Edduna í ár og ræða síðan hvort og þá hvaða breytingar við vildum gera fyrir næstu Eddu sem að öllum líkindum verður í febrúar 2012.
 
Við hlökkum til að sjá þig í Bíó Paradís þriðjudaginn 1. nóvember kl.15:00!
 

Með góðri kveðju,
f.h. stjórnar ÍKSA, 
 
Hilmar Sigurðsson
www.eddan.is


LISTALAUSI DAGURINN ER HALDINN 1.NÓVEMBER 2012 !

Margir líta á list sem sjálfsagðan hlut í umhverfi okkar og leiða sjaldan hugann að því hvaðan hún kemur eða hvernig hún verður til. Með því að taka einn dag í að velta fyrir sér hugmyndinni um líf án lista má komast að því hvaða þýðingu listirnar hafa fyrir hvert og eitt okkar. Á listalausum degi er fólk því hvatt til að takmarka aðgang að, slökkva á og lækka í öllum þeim listum sem það að nýtur alla jafna. Með því vonast aðstandendur listalausa dagsins til að hvert og eitt okkar átti sig betur á gildi listanna  og mikilvægi í daglega lífinu.

Eins og gefur að skilja þá er ekki verið að banna listir eða banna allan listflutning, eins og verið væri að boða til verkfalls, heldur munum við á listalausum degi höfða til almennings með því að hvetja til þess að engra lista verði notið í einn dag.  Nokkrir táknrænir gjörningar verða framkvæmdir í þeim tilgangi, en til hægðarauka höfum við útbúið 15  boðorð sem almenningur getur farið eftir til að forðast allar listir þennan dag. T.d. að hlusta ekki á tónlist, horfa ekki á byggingar eftir arkitekt, sækja ekki söfn, lesa ekki bókmenntir, fara ekki í bíó eða horfa á bíómynd í sjónvarpi og þar fram eftir götunum.

Leitað verður eftir sem víðustu samstarfi safna, stofnana, ljósvakamiðla og fólksins í landinu um að vekja athygli á málefninu, t.d. með því að hefta aðgang að listum þennan dag. Með sameinuðu átaki og táknrænum gjörningum, sem víðast um landið, er ætlunin að koma boðorðum listalausa dagsins til skila til þjóðarinnar. Allt í þeim tilgangi að skapa umræðu um umhverfi okkar án lista.

BÍL, Bandalag íslenskra listamanna, er bakhjarl listalausa dagsins og þau Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Jón B.K. Ransu og Rakel Steinarsdóttir hafa haldið utan um framkvæmdina.  Það er enginn einn höfundur að listalausum degi og þess vegna er óskað eftir þinni þátttöku. Þú og fjölmiðill þinn geta hjálpað til við að koma boðskapnum til skila.

Boðorðin eru:

1) Ekki fara á listasöfn, hönnunarsöfn, gallerí eða minjasöfn sem kunna að geyma listræna hluti.
2) Ekki horfa á málverk, ljósmyndir, höggmyndir eða nokkurskonar hluti sem eru list, hvar sem er, úti sem inni.
3) Ekki fara á tónleika.
4) Ekki hlusta á tónlist, hvorki af CD, LP, snældu, ipod eða GSM (þar á meðal hringitóna).
5) Ekki spila tölvuleik með grafískri mynd.
6) Ekki fara á danssýningu.
7) Ekki lesa bók eða nokkurn listrænan texta í blöðum eða tímariti. 
8) Ekki fara í leikhús '
9) Ekki horfa á kvikmynd í bíó, tölvu, sjónvarpi eða hverskonar skjá.
10) Ef myndlistaverk birtist í sjónvarpi, t.d. í fréttum eða kastljósi, jafnvel sem sviðsmynd eða bakrunnur, skulum við loka augunum eða líta undan.
11) Ef tónverk heyrist í sjónvarpi eða útvarpi skal lækka niður í tækinu.
12) Ekki horfa á byggingar sem eru hannaðar af arkitekt.
13) Ekki horfa á eða ganga um garða sem eru hannaðir af landslagsarkitekt.
14) Ekki horfa á eða ganga í sérhönnuðum fötum eftir tískufatahönnuð.
15) Ekki gera neitt eða njóta neins sem hægt væri að skilja sem list eða hefur í sér listrænt gildi.


WHEN EAST MEETS WEST - DEADLINE 15.NÓVEMBER
Árið 2012 er fókusinn settur á Norðurlöndin.
Valdir verða 20 framleiðendur með verk í vinnslu, annaðhvort leikna mynd í fullri lengd eða heimildarmynd með möguleika á alþjóðlegri meðframleiðslu.

Endilega kynnið ykkur þetta nánar HÉR


KVIKMYNDASKÓLI ÍSLANDS HEFUR HAFIÐ KENNSLU Á NÝ !

Þann 21. október 2011, var Kvikmyndaskóli Íslands loks settur á ný.
Kennsla hófst svo mánudaginn, 24. október.
www.kvikmyndaskoli.is

Mikil átök hafa verið síðustu mánuði við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem hefur nú gert styrktarsamning við Kvikmyndaskóla Íslands. Samningurinn gildir til 31. júlí á næsta ári með möguleika á framlengingu til 31. desember 2012.
Samið við Kvikmyndaskólann - Frétt á mbl.is

MENNINGIN FYLGIR ÓKEYPIS !

Grein eftir Hjálmtý Heiðdal:
-Um hagræn áhrif kvikmyndaframleiðslu

Nýlega sótti ég tvo fundi þar sem fjallað var um stöðu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar. Fyrri fundurinn var málþing á vegum RIFF undir skrítinni yfirskrift: Hvert fer íslensk kvikmyndagerð héðan? Sá seinni var á vegum Háskólans að Bifröst og fagfélaga kvikmyndageirans. Fyrri fundurinn var fjölsóttur og misheppnaður. Þar sat aðeins einn fulltrúi ríkisstjórnarinnar og þingsins allan fundinn; Árni Páll Árnason viðskipta- efnahagsmálaráðherra. Þótt hans innlegg í umræðuna væri fróðlegt og vísaði til framtíðar þá kom það skýrt fram að kvikmyndagerð væri ekki á hans málasviði og má því segja að hann hafi verið rangur maður á vitlausum stað. Fjarvera fulltrúa Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og stutt viðdvöl Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra gerði útslagið, umræðan náði ekki eyrum þeirra sem hafa möguleika á að koma viðhorfum kvikmyndagerðarmanna áfram. Baltasar Kormákur stakk uppá því að menn yfirgæfu salinn og sinntu öðrum málum í stað þess að enn eina ferðina hlusta á kollegana kvarta yfir skilningslausu ríkisvaldi. Sennilega var það besta hugmynd málþingsins og í anda hinnar skrítnu yfirskriftar þess: komum okkur héðan!

Fimmtudaginn 29. september var kvikmyndagerðamönnum enn smalað saman, nú til þess að fræðast um nýútkomna bók um Hagræn áhrif kvikmyndalistar eftir Ágúst Einarsson hagfræðing og prófessor á Bifröst. Eftir fyrirlestur Ágústar var ljóst að allt það sem við kvikmyndagerðarmenn og fleiri höfum sagt árum saman, um geysilega jákvæð hagræn áhrif kvikmyndagerðarinnar, er satt og sannreynt. Það sýnir sig að kvikmyndagerð er vistvæn, hún einkennist af nýsköpun, skilar hagnaði til þjóðarbúsins, styður við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni og býr yfir geysilegum vaxtarmöguleikum. Varlega áætlað fær ríkið 5 krónur til baka fyrir hverja krónur sem það fjárfestir í kvikmyndagerð. Menningin sem kvikmyndir skila þjóðinni er því hreinn virðisauki.

En þessar staðreyndir virðast ekki ná inn á skilningssvið ráðamanna - þeir virðast vera með slökkt á móttakaranum eða utan þjónustusvæðis.

Hvað veldur?

 
Afstaða ráðamanna vekja spurningar sem kvikmyndagerðarmenn verða að fá svör við, og svörin ráða miklu um framtíð atvinnugreinarinnar. Hér eru tvær spurningar sem ráðamenn verða að svara: 

Hvers vegna eru framlög ríkisins til kvikmyndagerðar skorin meira niður en til annarra listgreina?

 

Hvers vegna gerir menntamálaráðherra nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf. sem færir stöðu kvikmyndagerðarinnar gagnvart þeirri stofnun aftur um 5 ár?

Almennar yfirlýsingar um niðurskurð í kjölfar hrunsins skýra ekki lækkun framlaga til kvikmyndagerðarinnnar umfram aðrar listgreinar. Þess vegna verður að leita annarra svara.

Menn hafa velt fyrir sér mögulegum skýringum, nokkrar hef ég heyrt menn ræða.

1. Að heimavist Georgs Bjarnfreðarsonar í VG hafi móðgað flokkinn. (Grín?)

2. Að Mmrn. ráðuneytið einblíni á að verja störf við stórar stofnanir (Þjóðleikhúsið etc.) og því lendi kvikmyndasjóður undir hnífnum.

3. Að starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafi komist að þeirri niðurstöðu að vöxtur kvikmyndasjóðs í kjölfar samnings ríkisins við kvikmyndagerðina 2006 hafi verið svo ríflegur að þar mætti skera heil 35% af.

Fleiri hugmyndir um svör hafa verið á kreiki: Felst svarið í því að ráðherrar Vinstri grænna, sem fara með menningar- og fjármál, burðist með fornaldarhugmyndir um kvikmyndagerð? Eru þeir hrifnari af óperuflutningi, klassískri tónlist og leiksýningum en kvikmyndum?  Hafa forsvarsmenn kvikmyndagerðarinnar verið of hógværir í vörn sinni fyrir atvinnugreinina?

(Um nýja þjónustusamninginn milli Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og RÚV verður fjallað í annarri grein.)

Langtímaáhrif

Þótt það sé ekki ljóst hvað ræður gerðum ráðamanna, þá er niðurstaðan heiftarleg aðför að starfsgreininni sem mun veikja hana til langframa.  Það er sá raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir næstu árin. Aðgerðir stjórnvalda munu eyðileggja margra ára uppbyggingu framtíðar-atvinnugreinar, þekking og reynsla hverfur til annarra landa.

Framlag ríkisins til kvikmyndagerðar er fjárfesting og nemur um 20% af heildarveltu greinarinnar. Til viðbótar þessu sækja kvikmyndaframleiðendur fjármagn til ýmissa aðila, innanlands sem utan.

Stuðningur ríkisins við kvikmyndagerð er nauðsynleg undirstaða hennar, án þessarar undirstöðu verður nær engin kvikmyndagerð stunduð á Íslandi og litlir möguleikar til þess að sækja annað fjármagn. Minnki kvikmyndaframleiðslan mun ríkið verða af umtalsverðum tekjum, því starfsemin endurgreiðir ríkinu sitt framlag eins og áður segir. Kvikmyndagerðin, ólíkt flestum öðrum listgreinum, þarfnast ekki hárra framlaga vegna húsnæðis og yfirbyggingar s.s. Þjóðleikshúss eða Hörpu. Kvikmyndamiðstöð er lítil stofnun sem kostar um 70 milljónir að reka á ári.

Skýrslur og fleiri skýrslur

Það er ljóst að kvikmyndagreinin nær ekki að opna augu ráðamaðamanna með skýrslum og greinargerðum. Þrjár skýrslur hafa verið birtar að undanförnu, „Rauða skýrslan“ sem unnin var á vegum fagfélaga kvikmyndagerðarinnar sýndi hvernig kvikmyndagerðarmenn skila ríkinu strax til baka framlagi þess og hvernig verkefnin eru m.a. fjármögnuð með sókn í sjóði erlendis. „Bláa skýrslan“, sem unnin var á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fjallaði um starfskilyrði og menningarlegt gildi kvikmyndagerðar. Í þeirri skýrslu er m.a. kafli sem útskýrir hve samstarf RÚV við kvikmyndagerðarmenn hefur gengið brösulega. Og síðust, en ekki síst, er fyrrnefnd bók Ágústar Einarssonar um hagræn áhrif kvikmyndagerðar.

Þrátt fyrir aðgang að þessum upplýsingum halda ráðamenn áfram þeirri stefnu sinni að draga úr hlut kvikmyndagerðar samanborið við ýmsar aðrar mikilvægar listgreinar. Í meðfylgjandi línuriti  er þróun fjárveitinga til Kvikmyndamiðstöðvar borin saman við fjárveitingar til Sinfóníuhljómsveitarinnar, Íslenska dansflokksins, Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins. Með samanburðinum er ekki verið að ræða upphæðir eða meta gildi hverrar greinar, hér er eingöngu verið að sýna hversu ráðamenn eru einbeittir í því að skerða hlut kvikmyndagerðarinnar.

Línuritið sýnir að allar fjárveitingar til þessarar listastarfsemi eru að aukast á árunum fyrir hrun. Í fyrstu hrunfjárlögunum  2009 er fjárfesting í kvikmyndagerð skorin harkalega niður en samaburðaraðilarnir sigla áfram, að mestu ótruflaðir af hruninu. Röksemdin um að kvikmyndagerðin hafi vaxið umfram aðrar greinar stenst því ekki.

(Tónlistarhúsið Harpa er sett inn til glöggvunar, en í því húsi er framtíðarheimili Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitarinnar).

sulurit

Spurningunni er því enn ósvarað:

Hvers vegna eru framlög ríkisins til kvikmyndagerðar skorin meira niður en til annarra listgreina?


ICELANDIC CINEMA ONLINE VEFURINN !
Framleiðendur og aðrir rétthafar íslensks kvikmyndaefnis eru hvattir til að hafa samband hafi þeir áhuga að koma kvikmyndaefni sínu á framfæri á vefnum. 

Vefurinn býður upp á aðgengi að íslensku kvikmyndaefni hér á landi sem og erlendis. Stefnan er að bjóða upp á fjölbreytt úrval af  kvikmyndum,  heimildarmyndum, stuttmyndum, sjónvarpsþáttum og  öðru kvikmyndatengdu efni frá Íslandi.

Kynningarvideo http://vimeo.com/30394102 

Icelandic Cinema Online
Gríðaleg aukning er í eftirspurn eftir kvikmyndaefni á netinu og mikilvægt að íslenskir framleiðendur  og kvikmyndagerðarfólki nýti sér þau tækifæri sem netið hefur upp á að bjóða.

Til að koma efni þínu á framfæri, vinsamlegast hafðu samband við Sunnu í síma 6930995 eða með því að senda henni mail á sunna@icelandiccinema.com.
Icelandic Cinema Online á Facebook 
Icelandic Cinema Onine á vefnum


 

Dagskrá mánaðarins má finna með því að smella hér.

Í Bíó Paradís er einnig að finna veitingahús og verslun með 
mynddiska og annan kvikmyndatengdan varning.

Bíó Paradís er því nokkurskonar hjarta kvikmyndamenningar í landinu; áfangastaður allra þeirra sem vilja eiga góðar stundir í afslöppuðu umhverfi sem angar af andrúmslofti kvikmyndanna. 
Bíó Paradís á facebook.
Bíó Paradís á vefnum


LUMAR ÞÚ Á EFNI Í FRÉTTABRÉF

Endilega sentu þá allar upplýsingar í pósti 
á filmmakers@filmmakers.is

FK Á FACEBOOK

Félag Kvikmyndargerðarmanna heldur uppi fésbókarsíðu sem inniheldur ýmsar fréttir, endilega skráðu þig og nýttu þér hana til að fylgjast með sem og koma þínum viðburðum á framfæri.

SÆKJA UM AÐILD AÐ FK

Félagar geta orðið þeir sem lokið hafa a.m.k. eins árs námi frá viðurkenndum kvikmyndaskóla, eða hafa sinnt skapandi eða sérhæfðum faglegum störfum við kvikmyndagerð í minnst 12 mánuði. Aðild að félaginu er bundin við einstaklinga.

UMSÓKN Í MENNINGARSJÓÐ

Menningarsjóðurinn úthlutar styrkjum eingöngu til einstaklinga sem eru félagar í FK og eru skuldlausir við félagið. Þarf minnst að hafa borgað tvenn ársgjöld.
Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til a sþ

STJÓRN FK 2011

Hrafnhildur Gunnarsdóttir
         
formaður
Stefanía Thors
         
varaformaður
Guðbergur Davíðsson
         
gjaldkeri
Anna Þóra Steinþórsdóttir
          
ritari
Anton Máni Svansson
         
stjórnarmaður
Arnar Marrow Einarsson
         
stjórnarmaður
Júlía Embla Katrínardóttir
         
stjórnarmaður
Guðmundur Erlingsson
         
varamaður stjórnar
Goði Már Guðbjörnsson
         
varamaður stjórnar

Our mailing address is:
www.filmmakers.is - filmmakers@filmmakers.is - Copyright (C) 2010
Félag Kvikmyndagerðarmanna / The Icelandic Filmmakers Association - Hverfisgata 54 - 101 RVK - Iceland
Email Marketing Powered by Mailchimp